Viewable with Any Browser - Íslenska - Herferð fyrir WWW með hvaða rápforriti sem er
Síðast uppfært 5. október 1998
Athugið: Þessi síða er skrifuð af Cari D. Burstein til að lýsa röksemdunum á bak við herferðina "Best Viewed with Any Browser". Ef þú kemur hingað af síðu með "Best Viewed with Any Browser"-mynd eða texta, þýðir það að höfundur þeirrar síðu er samþykkur skoðunum þeim sem fram koma hér og tekur þátt í því að draga úr ráparaháðri vefhönnun. Hér fyrir neðan getur þú lesið meira um herferðina, og hvort hún er eitthvað sem þú vilt taka þátt í. Athugasemdir þýðanda: Persónan sem kallast "ég" í þessu skjali er ekki þýðandinn sjálfur, en hann vill gjarnan taka þátt í þessu verkefni, enda var þetta hugmyndin á bakvið fyrstu rápforritin og vefinn þegar þau komu fyrst fram.
"Hver sá sem treður 'Best er að skoða þessar
síður með Rápara X'-merkimiða á vefsíðu
sína virðist þrá þá gömlu vondu
daga, fyrir komu vefsins, þegar möguleikarnir á að
lesa skjal á annarri tölvu, öðru ritvinnsluforriti
eða öðru netkerfi voru nánast engir."
-- Tim Berners-Lee
í Technology Review, júlí 1996
Úr því að þú ert að lesa þessa síðu, þá ertu líklega áhugasamur um að vita eitthvað um "Viewable With Any Browser" hnappinn sem á henni er. Ég skal skýra þetta út fyrir þér. Ég er afar óánægður með núverandi hönnunarstefnu á vefsetrum þar sem einum rápara er gert hátt undir höfði en annar er hunsaður. Mér finnst einstaklega pirrandi þegar ég sæki heim vefsetur og kemst að því að ég hef verið útilokaður frá því nema ég komi aftur með Netscape eða Internet Explorer. Það er líka pirrandi að sækja heim vefsetur sem leyfa þér skoðun með hvaða rápara sem er, en eru svo hlaðin merkjum sem eru bara studdar í nokkrum vinsælum rápurum, eða sleppa stuðningi við textarápara.
Ég myndi vilja snúa þessari stefnu við. Ég veit að ég get ekki breytt vefnum upp á mínar eigin spýtur, en margt smátt gerir eitt stórt, og því greiði ég atkvæði fyrir Veraldar Víðum Vef sem er óháður tölvutegund og rápforriti. Þess vegna hef ég sett fram "Viewable With Any Browser" hnappinn til að leggja áherslu á viðleitni mína til að skapa vefsetur sem hægt er að skoða í öllum rápurum, og virka fullkomnlega. Sumar síður geta litið betur út í sumum rápurum en öðrum, en það ætti að vera hægt að lesa þær í hvaða rápforriti sem er. Ég reyni að nota ráparaháðar merkingar á viðeigandi hátt, og bara ef það er góð ástæða fyrir notkun þeirra, og þar sem ég nota merki sem einungis nokkrir ráparar styðja, eins og myndræn kort, ramma, Java o.s.frv., þá hef ég gert mitt besta til að nýta hentuga möguleika HTML til að virka niður eftir ráparaskalanum, eða sett inn valkosti fyrir rápara sem styðja þær ekki. Vinsamlegast látið mig vita ef þið sjáið eitthvað á vefsíðum mínum sem virkar ekki í rápforritinu þínu (skilgreindu nákvæmlega hvaða rápara þú notar og hvað virkaði ekki) og þá mun ég reyna að laga það.
Ég hvet því hvern þann sem vill taka þátt í þessu verkefni, að afrita einhverja af þeim fjölmörgu myndum sem þátttakendur í herferðinni bjóða upp á, en þær standa til boða á Any Browser Graphics síðunni. Ef þig langar til að búa til fleiri myndir fyrir herferðina, gjörðu svo vel! (og láttu mig vita ef ég má bjóða öðrum að nota þær). Mér þætti best ef þú tengdir myndina við þessa síðu, svo að fólk skilji um hvað málið fjallar, eða ef þú byggir til þína eigin síðu um þessa herferð, en ef þér líkar það ekki, þá er það í góðu lagi hvað mig varðar.
Hérna er dæmi um html sem þú getur notað (með viðeigandi breytingum) ef þú vilt:
<p><a href="http://www.anybrowser.org/campaign/">
<img src="slóði-myndar/nafn-myndar"
width="breidd-myndar-í-pixelum" height="hæð-myndar-í-pixelum"
alt="Skoðist með hvaða rápforriti sem er" /></a></p>
Athugið: Þú ættir að velja eina myndina af Any Browser Graphics síðunni og afrita hana á skráarsvæði vefseturs þíns, og breyta kóðanum fyrir ofan svo hann passi við uppsetningu þína og myndina sem þú valdir. Ekki tengja beint við myndina á miðlaranum mínum ef þú kemst hjá því, enda veldur það því að síðan hleðst hægar inn, álagið eykst á miðlarann minn og ef ég færi skrána, þá gæti hent að tengingin hætti skyndilega að virka.
Ef þú vilt síður sína myndir á setrinu þínu, en vilt láta fólk vita að setrið sé hannað til að virka á sérhverjum rápara, þá myndirðu kannski vilja bæta inn textatengingu einhvers staðar á setrinu sem segir eitthvað á þessa leið: "Hægt að skoða með uppáhalds ráparanum þínum" eða "Sést best í hvaða rápforriti sem er" (eða hvað sem þér finnst henta best). Það væri gott ef þú tengdir þennan texta við þessa síðu eða þú getur búið til þína eigin síðu sem lýsir herferðinni, þannig að fólk sem vill vita meira um málið gæti fundið nánari upplýsingar, og hugsanlega hannað eigin setur sem hver sem er gæti skoðað. Þú gætir hugsanlega kíkt á Any Browser Graphics síðuna til að sjá önnur slagorð sem þátttakendur í herferðinni hafa sett fram.
Það eru tvær megin ástæður fyrir því að setja myndina og/eða textann á setrið þitt ef þú hannar vefsetur sem hægt er að skoða í hvaða rápforriti sem er:
- Til að láta gesti vita að þú leggir það á þig að gera setrið þitt nothæft fyrir hvern sem er.
- Til að hvetja aðra til að hanna setrið sitt þannig að hægt sé að skoða það í hvaða rápara sem er.
Ég hef búið til leiðbeiningar um hönnun aðgengilegra setra (Accessible Site Design Guide) sem fjalla um atriði í aðgengi vefsíðna og hvernig hægt er að gera síðuna þína eins aðgengilega og mögulegt er. Þetta eru ekki HTML leiðbeiningar, en þær munu auka skilning þinn á hvaða vandkvæði í aðgengi vefsíðna eru algengust og koma á framfæri ráðum til að stemma stigum við þeim. Endilega lítið á listann af setrum fyrir neðan til að fá nánari upplýsingar.
Ef þú hefur séð setur sem eru ekki aðgengileg og þú vildir hvetja þau til að gera þau auðskoðuð af hvaða rápara sem er, þá væri góð hugmynd að senda þeim skilaboð. Það eru nokkur dæmi um skeyti annars staðar á þessu setri.
Ég vona að þú gangir til liðs við þetta verkefni, svo hægt sé að draga úr ráparaháðri vefhönnun og vernda valfrelsi allra vefnotenda.
Láttu mig vita ef þú ert með spurningar, athugasemdir eða ábendingar á campaign AT anybrowser DOT org
Þýðandi: Guðjón Torfi Sigurðsson - gudjont@aknet.is